08/22/2023
Skeljungur ehf. undirritar kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Búvís ehf
Búvís var stofnað í janúar 2006 af bræðrunum Einari Guðmundssyni og Gunnari Guðmundarsyni sem hafa átt og rekið félagið frá upphafi.
Skeljungur ehf. hefur undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Búvís ehf. á Akureyri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skeljungi en þar segir að með kaupunum hyggst félagið bæta enn frekar vöruúrval og þjónustuframboð við bændur víðs vegar um landið en að öðru leyti eru engar breytingar fyrirhugaðar á starfsemi Búvís eða þjónustu við viðskiptavini.
Búvís var stofnað í janúar 2006 af bræðrunum Einari Guðmundssyni og Gunnari Guðmundarsyni sem hafa átt og rekið félagið frá upphafi.
Félagið sérhæfir sig í sölu og þjónustu búvéla og rekstarvara til bænda svo sem áburði, rúlluplasti og rúlluneti. Vaxandi þáttur í rekstrinum er einnig sala á vörum til annarra hópa.
Eigendur komnir að vissum tímamótum
Fyrirtækið er staðsett á Akureyri en sölumenn og umboðsaðilar eru dreifðir um landið sem eru mest bændur.
Einar Guðmundsson framkvæmdastjóri Búvís segir í tilkynningu að eigendur hafi verið kominn að vissum tímamótum með fyrirtækið og fagni því að sjá það í góðum höndum.
Jafnframt segist hann hlakka til þess að aðstoða nýja eigendur við að efla félagið enn frekar með það fyrir augum að bæta þjónustu og vöruúrval til viðskiptavina, sem séu þeim bræðrum afar kærir eftir áralöng og góð viðskipti.
Skeljungur þjónar orkuþörf fyrirtækja og sér um innkaup, heildsölu og dreifingu á eldsneyti sem og sölu á smurolíum, hreinsi- og efnavörum og áburði undir vörumerkinu Sprettur ásamt öðrum landbúnaðarvörum. Það er stefna Skeljungs að bjóða bændum vöruúrval í hæsta gæðaflokki og framúrskarandi þjónustu á samkeppnishæfu verði.
Að sögn Þórðar Guðjónssonar forstjóra Skeljungs sér hann Búvís sem áhugavert og spennandi fyrirtæki sem muni stuðla að betri tengingu við bændur og gefi mikil tækifæri til framsóknar víða um land. Þá sjái hann mikil færi á að efla starfsemi Búvís enn frekar í kjölfar kaupanna, viðskiptavinum félagsins til heilla.
Fyrirtækjaráðgjöf Íslenskra verðbréfa hafði milligöngu um kaupin og stýrði söluferlinu en kaupin eru háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.