07/22/2024
Styrkás undirritar kaupsamning um kaup á Krafti
Í dag var undirritaður kaupsamningur milli Styrkáss hf. og Björns Erlingssonar um kaup Styrkáss á öllu hlutafé í Krafti ehf. sem er söluaðili MAN, Palfinger og Bucher-Municipal á Íslandi. Kraftur rekur jafnframt þjónustuverkstæði fyrir MAN bifreiðar að Vagnhöfða í Reykjavík. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlits og birgja.
Kraftur verður áfram rekið sem sjálfstætt félag í kjölfar kaupanna en stefna nýs eiganda er að skapa hagræði og efla þjónustu við viðskiptavini Krafts með samnýtingu innviða sem til staðar eru innan Styrkás samstæðunnar. Traton Group er framleiðandi bæði MAN og Scania og með kaupunum verða söluaðilar beggja vörumerkja á Íslandi innan sömu samstæðu.
Velta Krafts árið 2023 nam um 2 milljörðum króna og hagnaður Krafts fyrir afskriftir (EBITDA án áhrifa IFRS 16) árið 2023 var 180 milljónir króna. Kaupverð verður að hluta til greitt með útgáfu nýrra hluta í Styrkási og getur seljandi eignast allt að 0,94% hlut í Styrkási ef viðmið nást að fullu.
Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss:
„Með kaupum á Krafti er skref stigið til að efla þann kjarna innan Styrkáss sem annast sölu og þjónustu á tækjum og búnaði. Fyrir er Klettur sem er m.a. söluaðili Scania og CAT á Íslandi en með kaupunum er ætlunin að nýta þá innviði sem til staðar eru innan samstæðu Styrkáss og byggja ofan á sterkt samband við Traton Group sem er framleiðandi bæði MAN og Scania.”
Björn Erlingsson, framkvæmdastjóri og eigandi Krafts:
„Kraftur hóf starfsemi árið 1966 og hef ég starfað hjá félaginu í yfir 40 ár og gengt starfi framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 1996. Í gegnum tíðina hefur vörumerkjum fjölgað og umsvifin aukist ár frá ári. Það er ánægjulegt að afhenda keflið til næstu kynslóðar og fá um leið sterkan eiganda að félaginu með mikla burði til að þjónusta viðskiptavini enn betur. Framtíðin er björt enda hefur félagið á að skipa úrvals hópi starfsfólks og býr að traustum viðskiptasamböndum til áratuga.”
Ráðgjafar Styrkáss í ferlinu eru fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, BBA // Fjeldco og Deloitte. Ráðgjafi Krafts er KPMG.
Nánari upplýsingar veitir Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss, asmundur@styrkas.is