02/07/2025
Metár hjá Styrkási

Styrkás skilaði metafkomu á árinu 2024 þar sem öll kjarnasvið samstæðunnar skiluðu góðri rekstrarafkomu. Rekstrarhagnaður (EBIT) samstæðunnar án IFRS áhrifa nam um 2,3 milljörðum króna og var 4% yfir rekstraráætlun.
Aukning var í sölutekjum og leigutekjur jukust um rúmlega 50% og námu leigutekjur samtals um 1 milljarði króna hjá samstæðunni. Góður vöxtur var jafnframt í þjónustutekjum á milli ára.
Handbært fé samstæðunnar nam 4,8 milljörðum króna í lok árs og nettó vaxtaberandi skuldir voru 1,8 ma.kr. Handbært fé móðurfélags nam 2,8 milljörðum króna í árslok sem veitir samstæðunni gott svigrúm til áframhaldandi vaxtar.
Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss
“Við erum stolt af árangri Styrkás samstæðunnar á liðnu ári. Félögin okkar skila metári þrátt fyrir áskoranir í ytra umhverfi. Þann árangur má fyrst og fremst þakka metnaðarfullu starfsfólki okkar. Við erum bjartsýn á árið 2025, sem fer kröftuglega af stað. Við munum á árinu halda áfram að leggja áherslu á að veita fyrirtækjum framúrskarandi þjónustu og nýta slagkraft samstæðunnar til að þjóna þörfum viðskiptavina ásamt því að stíga markviss skref í vexti samstæðunnar.”
Nánari upplýsingar um afkomu kjarnasviða Styrkás 2024:
Tæki og búnaður
Hjá Kletti sölu og þjónustu var 9% vöxtur í þjónustutekjum. Þá var metár í sölu Scania vörubíla og góður vöxtur í sölu hópferðabíla. Góður gangur var í sölu og þjónustu CAT vinnuvéla og er pantanabók fyrir árið 2025 sterk.
Orka og efnavara
Skeljungur skilaði metafkomu á árinu. 5% vöxtur var í seldu eldsneytismagni á milli ára og þjónustutekjur héldu áfram að styrkjast. Á sama tíma jókst sala á öðrum vörum, m.a. með auknu vöruframboði þar sem hafinn var innflutningur og sala á biki fyrir malbiksgerð.
Eignaumsýsla og leigustarfsemi
Hjá Stólpa var 6% vöxtur í tekjum milli ára sem drifinn var af öflugri sölu og leigu á gáma- og húseiningalausnum. Á móti kom að afkoma í smiðju- og kæliþjónustu var undir væntingum en jákvæður viðsnúningur varð í þeirri starfsemi undir lok síðasta árs.
Horfur ársins 2025
Horfur fyrir árið 2025 eru góðar. Áætlun ársins 2025 gerir ráð fyrir um 2,3 milljarða króna rekstrarhagnaði (EBIT) samstæðunnar án áhrifa IFRS.
Búist er við um 10% aukningu rekstrarhagnaðar (EBIT) í sölu og þjónustu á tækjum og búnaði hjá Kletti sem er drifin áfram af auknum umsvifum. Opnun þjónustuverkstæðis Kletts í Hafnarfirði síðasta vor samhliða stækkandi flota véla og tækja í þjónustu leggur grunn að áframhaldandi vexti þjónustutekna á árinu 2025.
Áætlun gerir ráð fyrir 10% aukningu rekstrarhagnaðar (EBIT) hjá Stólpa sem er drifin af auknum umsvifum á húseininga- og gámasviði. Áætlanir gera ráð fyrir áframhaldandi vexti leigutekna sem er drifinn áfram af leigu húseininga. Stólpi flytur á nýtt 30 þúsund fermetra athafnasvæði að Gullhellu í Hafnarfirði um mitt ár þar sem nýtt 1.500 fermetra verkstæðis- og skrifstofuhúsnæði er í byggingu.
Um 30 þúsund fermetra lóð að Tinhellu er í þróun hjá Styrkás samstæðunni auk þess sem 3.000 fermetra byggingarréttur í Sægörðum veitir gott svigrúm til uppbyggingar og innri vaxtar.
Eftir að hafa skilað metári árið 2024 gerir áætlun Skeljungs ráð fyrir lítils háttar samdrætti í afkomu vegna minnkandi sölu á skipaeldsneyti. Þann samdrátt má rekja til aukinna kolefnisgjalda og skattheimtu sem fyrirséð er að muni færa eldsneytissölu til skemmtiferðaskipa og íslenskra skipa frá Íslandi til nágrannalanda.
Innleiðing miðlægrar þjónustu Styrkáss til dótturfélaga heldur áfram á árinu 2025. Áætlað er að það muni skapa bæði aukna hagkvæmni og lækka kostnað milli ára.
Styrkás tilkynnti í desember um undirritun helstu skilmála kaupsamnings vegna kaupa á 100% hlut í Hringrás. Áreiðanleikakönnun stendur yfir samhliða vinnu við gerð kaupsamnings. Stefnt er að því að ljúka viðskiptum á 2. ársfjórðungi. Ekki er tekið tilliti til áhrifa af afkomu Hringrásar í áætlun Styrkáss.